Dagskrá fyrir Mosann-unglingadeild í janúar

14.1.2015

Loksins er dagskrá Mosans tilbúin og er margt sem við ætlum að bralla saman í janúar.
Eins og flestir vita þá er HM í handbolta að bresta á og ætlum við að hafa leiki Íslands varpaða á vegginn hjá okkur þá daga sem þeir spila.

Söngkeppni Hafnarfjarðar verður haldin í Hrauninu 21. janúar og eigum við tvo keppendur þar, þau Rögnu Steinunni og Eyþór.

Við erum með klúbbastarf á föstudögum þar sem krakkarnir geta mætt og skemmt sér í hinum ýmsu klúbbum. Stundum erum við með skráningu í klúbbana og hengjum við þá upp skráningarblað í byrjun vikunnar og í suma klúbba rukkum við eins og t.d. Siggu Klingenberg klúbbinn sem verður 30. janúar. Þá ætlar Sigga Kling að kíkja í heimsókn og kostar þátttaka í þeim klúbbi 500 kr.

Við erum búin að flytja Mosann og opnunartíminn breyttist aðeins eftir flutningana. Núna erum við með opið á morgnana fyrir þá unglinga sem eru í frímínútum/eyðu eða þegar tímar falla niður. Við erum ekki með skipulagða dagskrá en þau geta komið til okkar og horft á sjónvarpið, spilað pool og borðtennis, gripið í spil eða bara setið og spjallað.

Annars er alltaf mjög góð mæting í Mosann og allir skemmta sér vel hvort sem það er í skipulagðri dagskrá eða í pool, borðtennis eða sjónvarpsglápi :)
Tómstundamiðstöðin í Hraunvallaskóla | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2804 | Netfang sarap@hafnarfjordur.is